Um héraðssaksóknara
Héraðssaksóknari er einn af handhöfum ákæruvaldsins á Íslandi. Embættið fer með verkefni ákæruvalds og saksókn í sakamálum fyrir dómstólum ásamt því að annast einnig rannsóknir sakamála samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögum. Þá starfrækir embættið skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og annast meðferð mála er varða endurheimt og upptöku ólögmæts ávinnings af refsiverðri háttsemi, ásamt því að fara með margvísleg önnur stjórnsýsluverkefni. Sjá nánar undir liðnum „Verkefnin”.
Embætti héraðssaksóknara annast verkefni ákæruvalds á landsvísu sem ekki falla undir aðra handhafa ákæruvalds samkvæmt lögum, þ.e. ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvaldsins eða embætti lögreglustjóra. Héraðssaksóknari fer með saksókn mála er varða brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga og/eða sérrefsilögum og annast einnig rannsóknir alvarlegra fjármuna- og efnahagsbrota og brota gegn öðrum sérrefsilögum sem gilda á sviði margvíslegrar atvinnu- og athafnastarfsemi, svo sem fjármálafyrirtækja og markaða.
Embættið fer með rannsóknir og saksókn mála er varða brot gegn valdstjórninni og brot lögreglumanna í starfi, annarra en starfsmanna héraðssaksóknara. Annast embættið einnig margvísleg önnur verkefni á sviði stjórnsýslu og verkefni sem dómsmálaráðuneyti og embætti ríkissaksóknara fela honum. Embættið á einnig samstarf með öðrum innlendum og erlendum réttarvörslustofnunum, eftirlitsstjórnvöldum og öðrum aðilum eftir því sem við á. Sjá nánar undir liðnum „Verkefnin”
Héraðssaksóknari leitast við að haga störfum sínum í samræmi við markmið um að tryggja réttaröryggi borgaranna, tryggja vandaða og skilvirka málsmeðferð, gæði við úrlausn verkefna og hafa á að skipa hæfu starfsfólki sem hefur góða fagkunnáttu og starfsreynslu af verkefnum ákæruvalds og lögreglu. Hjá embættinu starfa um fimmtíu manns og samanstendur starfsmannahópurinn m.a. af lögfræðingum, lögreglumönnum, viðskipta- og hagfræðingum, riturum og öðrum sérfræðingum.
Héraðssaksóknari er Ólafur Þór Hauksson og varahéraðssaksóknari Kolbrún Benediktsdóttir.