Jafnlaunastefna embættis héraðssaksóknara

Jafnlaunastefna héraðssaksóknara

Jafnlaunastefna embættis héraðssaksóknara er hluti af jafnlaunastjórnunarkerfi embættisins og nær til alls starfsfólks þess hvort sem gerður hefur verið ráðningarsamningur eða skipað/sett í embætti. Jafnlaunastefnan er jafnframt launastefna embættisins og órjúfanlegur hluti af launaákvörðunum embættisins. Jafnlaunastefnan tryggir að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá séu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf líkt og kveðið er á um í lögum nr. 150/2020.

Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismun og skal það tryggt með því að:

  • Unnið sé markvisst að jafnréttismálum innan embættisins.
  • Innleiða og viðhalda jafnlaunakerfinu til samræmis við kröfur ÍST 85:2012 staðalsins og öðlast jafnlaunavottun í samræmi við 7. gr. laga nr. 150/2020.
  • Tryggja stöðugar umbætur á kerfinu með framkvæmd launagreininga, innri úttekt og reglulegu stöðumati.
  • Brugðist sé við óútskýrðum launamun með úrbótum og eftirliti.
  • Embættið skuldbindi sig til að fylgja viðeigandi lagakröfum, kjarasamningum, stofnanasamningum og öðrum kröfum sem embættið undirgengst varðandi meginregluna um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu skuli greidd jöfn laun fyrir sömu störf eða jafnverðmæt störf.
  • Skapa umgjörð til að setja fram og rýna jafnlaunamarkmið embættisins.
  • Kynna jafnlaunastefnu embættisins fyrir starfsfólki, hafa hana aðgengilega á Innri vef embættisins og fyrir almenningi.

Héraðssaksóknari ber ábyrgð á jafnlaunastjórnunarkerfinu og framgangi jafnlaunastefnunnar sem tekur til alls starfsfólks embættisins. Fyrirspurnum um jafnlaunastjórnunarkerfið skal beint til lögfræðings yfirstjórnar.

15.03.2024