Hvað á að tilkynna?

Ef grunur vaknar um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka ber að tilkynna viðskiptin til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skv. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 140/2018.

Þá er vísað til lægsta stigs gruns, þ.e. að sérhver grunur, óháð því hve mikill hann er, uppfyllir skilyrði um grun. Næganlegt er að grunur sé til staðar um að fjármuni kunni að mega rekja til refsiverðrar háttsemi, burt séð frá því hvort grunur reynist síðar meir hafa verið reistur á fullnægjandi rökum.  

Tilkynningarskyldir aðilar, starfsmenn þeirra og stjórnendur skulu tímanlega tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi.

Forðast skal viðskipti, þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að þau megi rekja til refsiverðrar háttsemi, þar til tilkynning hefur verið send skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og leiðbeiningar hafa borist frá skrifstofunni og þeim hefur verið fylgt. Í tilkynningu skal, ef við á, koma fram innan hvaða frests tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma viðskiptin.

Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað rannsókn á hendur þeim sem hafa hagsmuni af viðskiptunum skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

Tilkynningarskyldum aðilum, stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða þriðji aðili fái ekki vitneskju um að skrifstofu fjármálagreininga lögreglu muni verða eða hafi verið send tilkynning skv. 21. gr. eða að greining á grundvelli slíkrar tilkynningar sé hafin eða kunni að verða hrundið af stað.