Persónuverndarstefna

Markmið

Markmið með persónuverndarstefnu héraðssaksóknara er að vinnsla með persónuupplýsingar einstaklinga sé í samræmi við lagafyrirmæli og þau verkefni sem embættið hefur með höndum í samræmi við lögbundið hlutverk þess. Upplýsingum er safnað, þeim miðlað og þær varðveittar í samræmi við lög. Í persónuverndarstefnu þessari er lögð rík áhersla á að vernda persónuupplýsingar og veita upplýsingar um hvernig unnið er með þær hjá embættinu, hver tilgangur vinnslunnar er og hvað er gert við þær.

Persónuverndarstefnan tekur til einstaklinga en ekki lögaðila.

Ábyrgðaraðili

Ábyrgðaraðili er embætti héraðssaksóknara, Skúlagötu 17, 101 Reykjavík, kt. 441115-1480. Unnt er að hafa samband með því að hringja í síma 444-0150, með því að senda erindi í gegnum heimasíðuna eða með því að senda tölvupóst á hersak@hersak.is

Persónuverndarfulltrúi

Persónuverndarfulltrúi embættisins hefur eftirlit með því að farið sé að gildandi lögum og reglum um persónuvernd. Fyrirspurnum, athugasemdum eða ábendingum sem varða persónuupplýsingar og persónuvernd er hægt að beina til persónuverndarfulltrúa.

Persónuverndarfulltrúi héraðssaksóknara er með aðsetur hjá embætti ríkislögreglustjóra en sá er einnig persónuverndarfulltrúi allra lögreglustjóra, ríkissaksóknara og Fangelsismálastofnunar ríkisins. Er tilnefning hans byggð á heimild í lögum um persónuvernd, um sameiginlegan persónuverndarfulltrúa fleiri en eins stjórnvalds. Unnt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa í síma 444 2500 eða með því að senda tölvupóst á personuverndarfulltrui@logreglan.is.

Tengiliður héraðssaksóknara við persónuverndaryfirvöld og persónuverndarfulltrúa er lögfræðingur yfirstjórnar.

Vinnsla persónuupplýsinga hjá héraðssaksóknara, tilgangur vinnslunnar og grundvöllur

Hjá embætti héraðssaksóknara eru fimm meginstarfssvið. Saksóknarsvið 1, saksóknarsvið 2, rannsóknarsvið, rekstrar- og stjórnsýslusvið og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu. Á öllum starfssviðum er unnið með persónuupplýsingar.

Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga á þessum sviðum, utan rekstrar- og stjórnsýslusviðs, er að undirbúa, greina og rannsaka meinta refsiverða háttsemi og ljúka refsimeðferð sakamála. Einnig að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins, gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum. Þá er tilgangur vinnslunnar einnig að vinna að öðrum lögbundnum verkefnum sem lögreglu er ætlað samkvæmt 1. gr. lögreglulaga.

Hvað varðar rekstrar- og stjórnsýslusvið er að auki tilgangur vinnslu persónuupplýsinga sá að reka embætti héraðssaksóknara í samræmi við önnur lög og hlutverk í þágu stjórnsýslu og mannauðs sem þar starfar og almenns rekstrar.

Meginhlutverk embættis héraðssaksóknara er að annast meðferð ákæruvalds í sakamálum samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, einkum er varða alvarleg brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig rannsóknir sakamála er varða alvarleg fjármuna- og efnahagsbrot, brot gegn valdsstjórninni og brot lögreglumanna í starfi. Embættið annast einnig stjórnsýslumeðferð mála og rekstur í samræmi við fjöldamörg lög, m.a. lög um meðferð sakamála, stjórnsýslulög, lögreglulög, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og margvísleg önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru á grundvelli þessara laga.

Enn fremur spannar rekstur héraðssaksóknara ýmis lagafyrirmæli er varða rekstur stofnunar, þ.á m. lög um opinber fjármál, lög um fjárreiður ríkisins og lög um opinber innkaup. Starfrækir embættið einnig skrifstofu fjármálagreininga lögreglu en um þá starfsemi sérstaklega gilda lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, auk áðurnefndra lögreglulaga, stjórnsýslulaga og laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.

Ákvæði um rannsókn og saksókn er að finna í lögum um meðferð sakamála og reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Enn fremur er stuðst við útgefin fyrirmæli embættis ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvaldsins og getur gefið héraðssaksóknara bindandi fyrirmæli um meðferð sakamála.

Verkefni er varða ákærumeðferð og rannsóknir embættisins falla undir lög 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

Öll önnur verkefni embættisins er varða stjórnsýslu, rekstur, starfsmannahald, innkaup o.fl. falla undir lög 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 eins og hún var leidd í lög á Íslandi (svonefnd almenna persónuverndarreglugerðin).

Rannsókn sakamála og ákærumeðferð þeirra eru með vísan til laga 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi undanþegnar mörgum ákvæðum laga um persónuvernd, þ.m.t. ákvæðum um upplýsinga- og aðgangsrétt hins skráða að persónuupplýsingum um sig (takmarkaður aðgangur).

Embætti héraðssaksóknara vísar sakamálum til meðferðar dómstóla ef mál þykir vera nægjanlegt eða líklegt til sakfellis svo og einnig í tengslum við þvingunarráðstafanir samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Sé sakamáli ekki vísað til dómstóla lýkur héraðssaksóknari máli með endanlegri ákvörðun samkvæmt úrræðum laga um meðferð sakamála eða stjórnvaldsákvörðun samkvæmt stjórnsýslulögum ellegar vísar því til úrlausnar annars aðila samkvæmt lögum.

Um aðgang að upplýsingum og gögnum vegna meðferðar sakamáls hjá héraðssaksóknara gilda reglur laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, einkum ákvæði 37. og 47. gr. en einnig ákvæði fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 9/2017 um aðgang að gögnum sakamála sem er lokið.

Að öðru leyti og vegna stjórnsýslumála embættisins, verkefna sem tengjast innra starfi embættisins o.fl. gilda ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga um upplýsingarétt, 16. gr. sömu laga um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti og 17. gr. laganna um takmörkun á upplýsingarétti. Um upplýsingarétt almennings til aðgangs að gögnum og upplýsingum gilda jafnframt ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 með þeim takmörkunum og undantekningum sem leiða má af efni laganna en þar ber helst að nefna að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda þau ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn.

Hvaðan berast persónuupplýsingar

Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga er forsenda þess að héraðssaksóknari geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Persónuupplýsingar berast frá öðrum löggæslu- og eftirlitsstofnunum, einstaklingum og lögaðilum, t.d. fjármálafyrirtækjum, en einnig öðrum ríkisstofnunum og öðrum aðilum jafnt hér á landi sem erlendis.

Til hverra er persónuupplýsingum miðlað

Héraðssaksóknari afhendir persónuupplýsingar í samræmi við lagaskyldur þar að lútandi, t.d. til dómara, verjenda og réttargæslumanna í sakamálum, við vísun mála til annarra stofnana s.s. dómstóla, skattayfirvalda eða annarra stjórnvalda, svo og til einstaklinga eða lögaðila sem sýna fram á rétt til slíkra upplýsinga eða lögvarða hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar enda sé afhending gagna í samræmi við gildandi lög.

Réttindi hins skráða einstaklings og aðgangur hans að gögnum

Þrátt fyrir takmarkanir sem kunna að gilda um aðgang að gögnum og upplýsingum samkvæmt lögum um meðferð sakamála, stjórnsýslulögum og persónuverndarlögum, getur einstaklingur (hinn skráði) farið fram á að fá upplýsingar um vinnslu eigin persónuupplýsinga hjá héraðssaksóknara og enn fremur óskað eftir aðgangi að þeim. Er sérhver slík beiðni metin og tekin ákvörðun um hvaða upplýsingar eru veittar og hvernig fer með aðgang að þeim.

Trúnaður og þagnarskylda

Starfsfólk héraðssaksóknara hefur aðgang að þeim upplýsingum sem það þarf til að geta sinnt starfi sínu. Fer aðgangur eftir starfssviði hvers og eins og verkefnum sem viðkomandi annast.

Allt starfsfólk héraðssaksóknara er bundið þagnarskyldu samkvæmt lögum og helst þagnarskylda þótt látið sé af störfum. Við undirritun ráðningarsamnings skrifar starfsmaður undir yfirlýsingu um þagnarskyldu. Um þagnaskyldu starfsfólks héraðssaksóknara gilda einkum ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga, svo og einnig 4. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála, 22. gr. lögreglulaga og 55. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ef brotið er gegn þagnarskyldu getur slíkt varðað refsingu samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga.

Þá gilda enn fremur leiðbeinandi tilmæli til starfsfólks héraðssaksóknara sem birt eru á innri vef embættisins, siðareglur ákærenda sem birtar eru m.a. á vef ríkissaksóknara, svo og einnig viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna sem birt eru á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Öryggismál

Héraðssaksóknari ábyrgist að persónuupplýsingar sem óskað er eftir séu varðveittar á tryggum stað og að enginn óviðkomandi aðili hafi aðgang að þeim. Skal öll miðlun persónuupplýsinga vera í samræmi við lagaheimild, vera eingöngu á grundvelli lögskipaðra verkefna og þjóna málefnalegum tilgangi.

Tölvu- og upplýsingakerfi héraðssaksóknara eru rekin innan embættisins og hýst hjá því svo og hjá embætti ríkislögreglustjóra. Þau helstu eru málaskrárkerfið GoPro, landskerfi lögreglunnar sem eru málaskrá lögreglu og málaskrá ákæruvaldsins og tölvu- og upplýsingakerfi skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

Vefsíða héraðssaksóknara (ytri vefur) er hýst hjá Hugsmiðjunni á Íslandi og er engin tenging milli vefsíðunnar og annarra tölvu- og upplýsingakerfa embættisins. Embættið er einnig með innri vef sem geymir mikilvægar upplýsingar til starfsfólks er varða innri gæðareglur starfseminnar, fréttir og tilkynningar, fræðsluefni, upplýsingar um viðburði og aðrar upplýsingar sem eingöngu eru ætlaðar starfsfólki og starfsemi héraðssaksóknara. Innri vefur embættisins er einungis aðgengilegur starfsmönnum embættisins.

Tímaskráning starfsfólks fer fram í Vinnustund sem er hluti af Oracle (fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins). Embætti héraðssaksóknara er í greiðslu- og bókhaldsþjónustu hjá Fjársýslu ríkisins.

Varðveislutími

Persónuupplýsingar eru varðveittar meðan þörf er á þeim og verkefni embættisins og málefnalegar ástæður gefa tilefni til. Þá hagar embætti héraðssaksóknara skjalamálum sínum í samræmi við lög um opinber skjalasöfn og geymslutími og skilaskylda gagna fer samkvæmt þeim lögum. Þá gilda sérákvæði laga um meðferð sakamála um skil haldlagðra gagna og muna og upptöku.

Vefkökur (cookies)

Vefur embættisins https://www.hersak.is/ er hýstur hjá Hugsmiðjunni á Íslandi. Til að mæla notkun á vefnum, m.a. fjölda innlita á vefinn, lengd hvers innlits, hvaða síður hans eru skoðaðar, hversu oft, á hvaða tíma dags, hvaða stýrikerfi eða vafri er notaður við skoðun o.fl. er unnt að styðjast við Google Analytics. Upplýsingar sem fást með þessum hætti eru eingöngu notaðar af héraðssaksóknara til þess að þróa og betrumbæta vefinn, fá yfirsýn yfir notkun hans, m.a. á hvaða efni notendur hafa mestan áhuga og til þess að aðlaga vefinn betur að þörfum notenda.

Aðrar vefsíður geta ekki lesið upplýsingar sem geymdar eru á vefkökunni og ekki er gerð tilraun til að komast yfir frekari upplýsingar um hverja komu á vefinn eða tengja slíkt saman við aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

Persónuvernd

Einstaklingur getur lagt fram kvörtun til Persónuverndar sem annast eftirlit á sviði persónuverndar, sbr. nánar https://www.personuvernd.is/.

Önnur ákvæði

Rýna skal persónuverndarstefnu embættisins, leggja mat á árangur af henni og framkvæmd einstakra þátta, meta þörf á endurskoðun og miðla upplýsingum um þessi efni eftir þörfum.

Embætti héraðssaksóknara

Reykjavík 14. maí 2020,

Ólafur Þór Hauksson