Peningaþvætti

1. janúar 2019 voru samþykkt á Alþingi ný heildarlög um aðgerðir gegn peninga-þvætti og fjármögnun hryðjuverka. Markmið laganna er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.

Hvað er peningaþvætti?

Í lögunum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er peningaþvætti skilgreint: 

Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við ávinningi, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum; einnig þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. 

Skipta má peningaþvætti upp í þrjú stig:

  1. Ávinningi af broti er komið inn í hagkerfið, oftast í gegnum fjármálafyrirtæki. (Placement)
  2. Ávinningurinn sem nú er kominn inn í fjármálakerfið er fluttur til innan fjármálakerfisins jafnvel oftar en einu sinni til að leyna upprunalegu eignarhaldi. (Layering)
  3. Ávinningnum er komið inn í efnahagskerfið t.d. með því að kaupa löglegar eignir s.s. fasteignir, bíla, hlutabréf osfrv. (Integration)


Hvað er frumbrot peningaþvættis?

Frumbrot eru þau brot sem geta leitt af sér ólöglegan ávinning eða annan ágóða sem reynt er að þvætta. Frumbrot peningaþvættis geta verið öll brot á almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Dæmi um algeng frumbrot peningaþvættis eru fjársvik, fjárdráttur, skattalagabrot, fíkniefnabrot, spillingarbrot o.fl.

Hvað er sjálfþvætti?

Þegar sami aðili fremur frumbrot og þvættar sjálfur ólöglegan ávinning er um sjálfþvætti að ræða. Sjálfþvætti getur varðað allt að 6 ára fangelsi skv. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

 Viðurlög

Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga varðar peningaþvætti allt að 6 ára fangelsi sé um ásetning að ræða og allt að 6 mánaða fangelsi sé um gáleysi að ræða sbr. 4. mgr. Refsað er samkvæmt almennum hegningarlögum fyrir brot gegn 264. gr. sem framið er innan íslenska ríkisins enda þótt frumbrotið sem ávinningur stafi frá hafi verið framið erlendis, og án tillits til hver var að því valdur. 

Sé um ávinning af fíkniefnabroti að ræða getur refsing orðið allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.