FATF
Financial Action Task Force
Ísland gekk í FATF (Financial Action Task Force) árið 1991 og með því skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að tilmælum FATF.
FATF var stofnað á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París 1989 sem alþjóðlegur framkvæmdahópur til að móta aðgerðir til að koma í veg fyrir misnotkun á fjármálakerfinu í þeim tilgangi að koma illafegnu fé í umferð. Árið 2001 var baráttunni gegn hryðjuverkum bætt við hlutverk FATF og árið 2007 fjármögnun útbreiðslu gereyðingarvopna.
Hlutverki FATF hefur verið skipt í þrennt:
- Semja tilmæli fyrir aðildarríkin (recommendations).
- Leggja mat á aðgerðir ríkjanna við innleiðingu tilmælanna.
- Læra að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
FATF samdi 40 tilmæli til aðildarríkja og eru tilmælin alþjóðlegir staðlar til að styðjast við í baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilmælin hafa verið endurskoðuð fjórum sinnum með tilliti til þróunar á þessu sviði. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau.
FATF framkvæmir úttektir á lögum, reglum og starfsaðferðum aðildarríkja og eru gerðar skýrslur um aðgerðir hvers ríkis. Ríkar kröfur eru gerðar til aðildarríkja um að standast kröfur FATF og felast þær m.a. í því að gerðar eru strangari körfur um hvers konar fjármálalega gerninga, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa svo eitthvað sé nefnt. Séu þessar kröfur ekki uppfylltar getur komið til þess að FATF gefi út aðvaranir um að viðskipti á svæðum aðildarríkja geti falið í sér hættu á peningaþvætti.
Inn á heimasíðu FATF er að finna 40 tilmæli FATF og mikið af upplýsingum um aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Árið 2017 gerði FATF heildarúttekt á stöðu varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Íslandi. Helstu niðurstöður og helstu úrbætur má nálgast á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins hér.