Tilkynningarskyldir aðilar

Í 2. gr. laga nr. 140/2018 eru taldir upp þeir aðilar sem falla undir lögin og eru tilkynningarskyldir:

 • Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
 • Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
 • Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
 • Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
 • Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
 • Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e-lið.
 • Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a–e-lið.
 • Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
 • Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem öll eftirfarandi skilyrði eiga við um:
  • gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
  • heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 millj. kr. á ári og
  • gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þús. kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
 • Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
 • Þjónustuveitendur stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
 • Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
 • Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
  • þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
  • þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
  • þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
  • þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
  • þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
  • þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
 • Fasteignasölur og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
 • Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
 • Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
 • Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
 • Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
 • Einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga.