Réttargæslumaður
Lögmaður sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal að setja fram bótakröfu í málinu ef um tjón er að ræða. Skylt er lögreglu að tilnefna réttargæslumann ef mál varðar kynferðisbrot og brotaþoli óskar þess. Þá er lögreglu skylt að tilnefna réttargæslumann ef mál varðar manndráp, líkamsmeiðingar eða brot gegn frjálsræði manna og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn og lögregla metur það svo að brotaþoli þurfi aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagmuna sinna í málinu. Þá skal ávallt tilnefna réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst. Réttargæslumanni er til að mynda ætíð heimilt, á meðan á rannsókn stendur að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola. Þá á réttargæslumaður rétt á að fá afrit af þeim málsgögnum sem varða þátt brotaþola auk þess sem að hann á rétt á því að vera viðstaddur öll þinghöld í málinu og tjá sig um bótakröfu brotaþola fyrir dómi auk þess sem honum er heimilt að tjá sig um réttarfarsatriði sem varða brotaþola sérstaklega.
Þóknun réttargæslumanns
greiðist úr ríkissjóð.