Jafnlaunastefna héraðssaksóknara

Umfang jafnlaunakerfis

Jafnlaunakerfi nær til alls starfsfólks embættis héraðssaksóknara. Starfsmaður er sá sem hefur gildandi starfssamband við embættið og er þar átt við að starfsmaður er með ráðningarsamning eða er skipaður eða settur í embætti. Kerfið nær ekki til verktaka né þeirra sem vinna tímavinnu.

Jafnlaunastefna

Stefna embættis héraðssaksóknara er að allt starfsfólk embættisins hafi jöfn tæki­færi í starfi í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Markmið embættis héraðssaksóknara er að allt starfsfólk njóti sambærilegra launa og kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni. Embættið greiðir laun sem taka mið af þeim kröfum sem störf gera.

Hjá embættinu eru til starfslýsingar fyrir öll störf þar sem fram koma megin­þættir starfs. Í stofnanasamningum eru skilgreindir starfaflokkar og þær kröfur sem gerðar eru til starfa. Ákvarðanir um laun eru teknar af héraðssaksóknara í samræmi við gildandi kjara- og stofnanasamninga.

Til að ná markmiðum skuldbindur embættið sig til að:

  • Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á staðlinum ÍST 85, skjalfesta það og viðhalda með eftirliti, viðbrögðum og stöðugum umbótum.
  • Framkvæma launagreiningu einu sinni á ári þar sem borin eru saman sömu eða jafnverð­mæt störf og athugað hvort mælist óútskýrður munur á launum eftir kyni. Bregðast skal við með stöðugum umbótum og eftirliti leiði greining í ljós óútskýrðan kynbundinn launamun.
  • Árlega skal kynna fyrir starfsfólki niðurstöður launagreiningar sem er til úttektar nema persónuverndarhagsmunir mæli gegn því.
  • Framkvæma innri úttekt á öllum útgefnum skjölum sem tilheyra jafnlaunakerfi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
  • Halda rýni stjórnenda árlega þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd.
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega hlítingu við lög.
  • Kynna jafnlaunastefnu árlega fyrir starfsfólki embættisins. Stefnan skal einnig vera almenningi aðgengileg á ytri vef embættisins.

Jafnlaunastefnan er jafnframt launastefna embættisins og órjúfanlegur hluti af launaákvörðunum héraðssaksóknara. Héraðssaksóknari ber ábyrgð á jafnlaunastefnu embættisins sem tekur til allra sem starfa hjá embættinu. Fyrirspurnum um jafnlaunakerfið skal beint til lögfræðings yfirstjórnar.

Samþykkt af héraðssaksóknara 21. mars 2023