Embætti sérstaks saksóknara

Embætti sérstaks saksóknara hætti starfsemi í árslok 2015 en það starfaði á árunum 2009-2015 á grundvelli laga um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008. 

Við öllum verkefnum embættisins tók embætti héraðssaksóknara sem tók til starfa 1. janúar 2016.

Embætti sérstaks saksóknara var komið á fót til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða sem leiddu til svonefnds „bankahruns“ á Íslandi um mánaðamótin september/október árið 2008. 

Embættinu var ætlað að rannsaka grun um refsiverða háttsemi hvort sem hún tengdist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga. Eftir atvikum átti að fylgja rannsókn eftir með saksókn. 

Haustið 2011 sameinaðist efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra embættinu og þar með bar embættið ábyrgð á öllum rannsóknum og saksókn efnahagbrota.